Öruggur sigur á botnliðinu

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á Handknattleiksbandalagi Heimaeyjar í 1. deild karla í handbolta þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum í dag.

Eyjamenn byrjuðu betur og komst í 5-3 en Selfoss jafnaði 5-5 og komst yfir í kjölfarið. Munurinn varð mestur átta mörk í fyrri hálfleik en staðan var 12-20 í leikhléi.

Selfoss kom af krafti inn í seinni hálfleikinn, náði tólf marka forskoti og gerði endanlega út um leikinn. Eyjamenn áttu engin svör og Selfoss sigraði að lokum 30-42.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Valdimar Örn Ingvarsson skoraði 6, Árni Ísleifsson 5, Haukur Páll Hallgrímsson 4, Jason Dagur Þórisson og Hákon Garri Gestsson 3, Guðjón Óli Ósvaldsson, Elvar Elí Hallgrímsson, Sölvi Svavarsson, Jónas Karl Gunnlaugsson og Tryggvi Sigurberg Traustason 2 og þeir Skarphéðinn Steinn Sveinsson, Álvaro Mallols og Anton Breki Hjaltason skoruðu allir 1 mark.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 9 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 4.

Eftir ellefu leiki eru Selfyssingar í 2. sæti deildarinnar með 18 stig, jafnmörg stig og topplið Þórs Ak, sem á leik til góða á Selfoss. HBH er á botni deildarinnar með 2 stig.

Fyrri greinSunnlensku liðin sigruðu í spennuleikjum
Næsta greinStórt tap á heimavelli