Kvennalið Selfoss vann öruggan 3-1 sigur á Fram í B-riðli 1. deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Leikurinn var jafn framan af fyrri hálfleik og bæði lið áttu álitlegar sóknir þó að færin hafi verið fleiri hjá Selfoss. Guðmunda Óladóttir fékk það fyrsta þegar hún slapp í gegn á 2. mínútu en kraftlítið skot hennar var varið. Á 17. mínútu slapp Guðmunda aftur innfyrir og skoraði en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Tveimur mínútum síðar sköpuðu Framarar hættu inni í vítateig Selfoss en Guðrún Arnardóttir, sem átti mjög góðan leik í vörn Selfoss, kom til bjargar á síðustu stundu.
Fram var meira með boltann um miðjan fyrri hálfleikinn en sóknarleikur Selfoss var ekki markviss á þeim kafla þar sem langar sendingar fram völlinn upp á von og óvon ógnuðu Framliðinu lítið.
Á 25. mínútu átti Anna María Friðgeirsdóttir gott skot að marki eftir skyndisókn en markvörður Fram varði í horn. Fimm mínútum síðar átti Anna annað skot rétt yfir markið. Framarar fengu næsta færi en skot þeirra var framhjá eftir að Dagný Pálsdóttir hafði farið í skógarhlaup út í teiginn.
Lokamínútur fyrri hálfleiks voru líflegar þar sem þrjú mörk litu dagsins ljós á þremur mínútum. Fram komst yfir á 37. mínútu eftir klafs í teignum uppúr hornspyrnu og er þetta fyrsta markið sem Selfoss fær á sig í deildinni í sumar. Mínútu síðar náði Anna María náði boltanum eftir slaka sendingu frá Framvörninni, sendi innfyrir á Guðmundu sem skoraði af öryggi og jafnaði leikinn. Fram tók miðju og Thelma Sif Kristjánsdóttir vann boltann strax á miðsvæðinu, sendi á Önnu Maríu sem renndi honum inn á Guðmundu sem kláraði færið aftur, en boltinn hafði viðkomu í varnarmanni.
Staðan var 2-1 í hálfleik og Selfossliðið byrjaði af miklum krafti í seinni hálfleik. Liðið fékk fimm mjög góð færi á fyrstu fimm mínútum seinni hálfleiks og ljóst að eitthvað þyrfti undan að láta. Úr sjöttu sókninni skoraði Bergþóra Gná Hannesdóttir þegar hún fékk boltann fyrir utan teig eftir hornspyrnu og lét vaða að marki.
Tveimur mínútum síðar átti Anna Þorsteinsdóttir efnilegt langskot sem markvörður Fram náði að verja en eftir það gerðist ekkert í tæpan hálftíma. Leikurinn einkenndist af miðjumoði og það var ekki fyrr en á 79. mínútu að Bergþóra átti gott skot af löngu færi sem markvörður Fram varði í horn. Framarar áttu svo síðasta færi leiksins þegar þær komust inn í sendingu út úr vörn Selfoss en sóknarmaður þeirra hitti boltann illa, nánast á marklínunni, eftir að vera kominn framhjá Ingu Láru Sveinsdóttur, varamarkmanni Selfoss.
Selfoss var í efsta sæti riðilsins fyrir leikinn en liðið hefur ekki tapað leik, er með markatöluna 9-1 og 15 stig. Haukar og Fjölnir koma næstir með 9 stig og eiga innbyrðisleik til góða.