Selfoss vann öruggan 2-5 sigur á ÍR á útivelli í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum frá upphafi en hefðu að ósekju mátt nýta færi sín betur. Katrín Ýr Friðgeirsdóttir skoraði fyrsta mark Selfoss og Guðmunda Brynja Óladóttir annað markið en staðan var 0-2 í hálfleik.
Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik þar sem Selfossliðið var mun sterkara en ÍR náði þó að læða inn tveimur mörkum. Það kom ekki að sök því Katrín og Guðmunda bættu báðar við einu marki auk þess sem Anna Þorsteinsdóttir skoraði beint úr aukaspyrnu.