Árborg og KFR léku fyrstu leiki sína í A-riðli 3. deildarinnar í dag. Árborg vann Hvíta riddarann örugglega á heimavelli en KFR tapaði fyrir Markaregni úti.
Árborg hafði yfirhöndina frá upphafi í leiknum gegn Hvíta riddaranum og Guðmundur Garðar Sigfússon skoraði fyrsta markið á 16. mínútu. Guðmundur Eggertsson bætti öðru marki við þremur mínútum síðar. Árborgarar sóttu áfram og Guðmundarnir héldu áfram að skora. Guðmundur Eggertsson bætti við marki á 33. mínútu og tveimur mínútum síðar skoraði Guðmundur Garðar fjórða mark liðsins.
Þá var komið að þætti Guðmundar Ármanns Böðvarssonar sem skoraði næstu þrjú mörk Árborgarliðsins. Staðan var 5-0 í hálfleik en Riddarinn skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks áður en Guðmundur Ármann kom Árborg í 7-1. Síðasta mark Árborgar skoraði svo varamaðurinn Stefán Guðmundsson og innsiglaði hann 8-1 sigur.
Leikur KFR og Markaregns var jafn en heimamenn komust yfir seint í fyrri hálfleik. Hjörvar Sigurðsson jafnaði fyrir KFR á 59. mínútu en það voru heimamenn í Markaregni sem kláruðu leikinn með tveimur mörkum á síðustu tuttugu mínútunum.