Öruggur sigur Hamars

Hamar gerði góða ferð í Kópavoginn í kvöld. Liðið mætti heimamönnum í Augnabliki í 1. deild karla í körfubolta og sigruðu leikinn örugglega 59-91.

Gestirnir frá Hveragerði byrjuðu leikinn mun betur en heimamenn og eftir fyrsta leikhluta voru þeir komnir með 12 stiga forystu, 14-26.

Það sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Hamarsmenn voru mun betra liðið á vellinum og í leikhléi var staðan 25-50.

Þrátt fyrir að vera komnir í góða stöðu voru Hamarsmenn ekkert á því að slaka á og héldu áfram að auka forystuna.

Þegar upp var staðið var hún orðin 32 stig og bæði stigin fóru til Hveragerðis í kvöld.

Jerry Hollis og Hjatli Valur Þorsteinsson skoruðu mest fyrir Hamar, 21 stig hvor. Næstur kom Örn Sigurðarson með 15 stig.

Fyrri greinTap í fyrsta leik hjá FSu
Næsta greinÞór sigraði eftir framlengingu