Öruggur sigur Hamars

Pálmi Geir Jónsson átti frábæran leik fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann öruggan sigur á botnliði Snæfells í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 108-79 í Hveragerði.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en Hamar náði forskoti í 2. leikhluta og leiddi 61-46 í hálfleik. Eftir þessa stórskotahríð í fyrri hálfleik var 3. Leikhluti aðeins rólegri en í síðasta fjórðungnum gerðu Hvergerðingar aftur áhlaup og innsigluðu 29 stiga sigur.

Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 34 stig, eins og Höttur sem er í toppsætinu. Snæfell er áfram á botninum með 4 stig.

Ragnar Ragnarsson var stigahæstur í Hamarsliðinu með 24 stig, Pálmi Geir Jónsson skoraði 22 og Björn Ásgeir Ásgeirsson sömuleiðis. Michael Philips skoraði 19 stig og tók 9 fráköst.

Fyrri grein„Svona ógeð er ekki hægt að láta sjást í hinni frægu Black Beach“
Næsta grein„Staðfesting á því að við séum að gera góða hluti“