Selfoss vann stórsigur á HK í botnbaráttu Olísdeildar kvenna í handbolta í Kórnum í Kópavogi í dag. Mikilvægur sigur og línur eru farnar að skýrast á botninum.
Selfoss hafði forystuna allan tímann, þær skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins og voru komnar með sex marka forskot um miðjan fyrri hálfleikinn. Staðan í leikhléi var 8-18.
HK saxaði á forskotið í upphafi seinni hálfleiks en þá gáfu Selfyssingar allt í botn og sigruðu að lokum 18-31.
Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8/5 mörk, Roberta Stropé skoraði 6, Arna Kristín Einarsdóttir 4, Karlotta Óskarsdóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir 3 og þær Adela Jóhannsdóttir, Kristín Una Hólmarsdóttir, Hulda Hrönn Bragadóttir og Tinna Soffía Traustadóttir skoruðu allar 1 mark.
Cornelia Hermansson átti frábæran leik í marki Selfoss, varði 19/2 skot og var með 54% markvörslu. Áslaug Ýr Bragadóttir varði 1 skot og var með 33% markvörslu. Elínborg Katla átti líka stórleik í vörninni með 18 löglegar stöðvanir.
Selfoss er í 7. sætinu með 6 stig og HK á botninum með 2 stig þegar sex umferðir eru eftir af deildarkeppninni.