Selfoss sigraði Álftanes örugglega í lokaumferð 1. deildar karla í körfubolta á heimavelli í Gjánni í kvöld. Lokatölur urðu 107-85.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og Selfyssingar leiddu í leikhléi, 51-46. Þeir lögðu svo grunninn að sigrinum með góðri vörn í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 75-61. Munurinn jókst svo enn frekar í síðasta fjórðungnum þar sem Selfyssingar voru grimmir í sókninni og röðuðu niður stigunum.
Gerald Robinson var í ham í kvöld, skoraði 33 stig og tók 23 fráköst fyrir Selfoss. Gasper Rojko og Trevon Evans skiluðu einnig sínu með 22 og 18 stig.
Ekkert sunnlensku liðanna komst í úrslitakeppnina og það var útséð fyrir lokaumferðina. Selfoss varð í 6. sæti deildarinnar með 24 stig, Hrunamenn í 8. sæti með 22 stig og Hamar í 9. sæti með 8 stig.
Tölfræði Selfoss: Gerald Robinson 33/23 fráköst, Gasper Rojko 22/12 fráköst, Trevon Evans 18/5 fráköst/9 stoðsendingar, Vito Smojver 9/4 fráköst, Styrmir Jónasson 8, Birkir Hrafn Eyþórsson 5, Arnar Geir Líndal 4, Birkir Máni Sigurðarson 3, Sigurður Logi Sigursveinsson 3, Sigmar Jóhann Bjarnason 2.