Öruggur sigur í umtalaðasta leik ársins

KFR vann öruggan sigur á Afríku í leik sem hófst síðastliðið miðvikudagskvöld og lauk í kvöld á ÍR-vellinum í Breiðholti. Lokatölur urðu 0-3.

Leikurinn var flautaður af á 9. mínútu síðastliðið miðvikudagskvöld vegna óláta í þjálfara Afríku sem hafði fengið rautt spjald fyrir leik. Afríkumenn voru óánægðir með að Slava Titov skyldi dæma leikinn og þeir fengu sínu framgengt því KSÍ skipti um dómara á leiknum og Sigurður Schram dæmdi síðustu 81. mínútuna.

Leikurinn hófst semsagt á 9. mínútu í kvöld með hornspyrnu Rangæinga. Tveimur mínútum síðar, á 11. mínútu, hafði Arnar Einarsson komið KFR yfir með marki uppúr hornspyrnu.

Jóhann Gunnar Böðvarsson kom KFR í 0-2 á 36. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Á 63. mínútu fékk einn leikmanna Afríku rautt spjald þannig að KFR lék manni fleiri síðasta hálftímann. Rangæingum tókst þó ekki að nýta liðsmuninn nema til þess að skora eitt mark, þegar fimm mínútur voru eftir, og þar var að verki Ævar Már Viktorsson.

Þetta var fyrsti sigur KFR í síðustu fjórum leikjum í deildinni en liðið tapaði 2-0 fyrir Vatnaliljum í síðustu umferð. Rangæingar hafa 10 stig í 6. sæti deildarinnar, jafnmörg stig og Stokkseyringar sem eru í 5. sæti.

TENGDAR FRÉTTIR:

Leikur KFR og Afríku flautaður af eftir tíu mínútur

Leik Afríku og KFR framhaldið á föstudagskvöld

Fyrri grein„Glaðir, en grátum stigin tvö sem fóru út í kosmósið“
Næsta greinEitt tilboð barst í Gunnarsgerði