KFR vann öruggan sigur á Afríku í lokaumferð 5. deildar karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í dag. Fyrir leik hafði KFR þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni þar sem Samherjar náðu aðeins jafntefli gegn Spyrni í gær.
Staðan í hálfleik var 4-0 en Helgi Valur Smárason skoraði tvisvar í fyrri hálfleiknum ásamt því sem Unnar Jón Ásgeirsson og Adam Örn Sveinbjörnsson komu boltanum í netið. Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri en Helgi Valur kórónaði þrennuna á 90. mínútu og Hjörvar Sigurðsson skoraði svo sjötta mark KFR í uppbótartímanum, lokatölur 6-0.
KFR endaði í 2. sæti B-riðilsins með 31 stig og fer í úrslit ásamt Kríu sem tók toppsætið með 41 stig.
KFR mætir RB í undanúrslitum 5. deildarinnar og liðið sem vinnur einvígið fer upp í 4. deildina að ári. Leikið er heima og heiman, fyrst á Hvolsvelli 3. september og svo í Reykjaneshöllinni 10. september. Úrslitaleikur deildarinnar fer svo fram 16. september en þá mæta KFR eða RB annað hvort Úlfunum eða Kríu.