Öruggur sigur og KFR í úrslit

Helgi Valur Smárason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR vann öruggan sigur á Afríku í lokaumferð 5. deildar karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í dag. Fyrir leik hafði KFR þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni þar sem Samherjar náðu aðeins jafntefli gegn Spyrni í gær.

Staðan í hálfleik var 4-0 en Helgi Valur Smárason skoraði tvisvar í fyrri hálfleiknum ásamt því sem Unnar Jón Ásgeirsson og Adam Örn Sveinbjörnsson komu boltanum í netið. Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri en Helgi Valur kórónaði þrennuna á 90. mínútu og Hjörvar Sigurðsson skoraði svo sjötta mark KFR í uppbótartímanum, lokatölur 6-0.

KFR endaði í 2. sæti B-riðilsins með 31 stig og fer í úrslit ásamt Kríu sem tók toppsætið með 41 stig.

KFR mætir RB í undanúrslitum 5. deildarinnar og liðið sem vinnur einvígið fer upp í 4. deildina að ári. Leikið er heima og heiman, fyrst á Hvolsvelli 3. september og svo í Reykjaneshöllinni 10. september. Úrslitaleikur deildarinnar fer svo fram 16. september en þá mæta KFR eða RB annað hvort Úlfunum eða Kríu.

Fyrri greinSelfoss átti ekkert svar
Næsta greinSelfoss tók 5. sætið – Tryggvi besti sóknarmaðurinn