Kvennalið Selfoss er áfram með fullt hús á toppi B-riðils 1. deildarinnar í knattspyrnu eftir 4-0 sigur á ÍR á Selfossi í kvöld.
Fyrri hálfleikur var tíðindalítill, Selfoss var meira með boltann og átti beittari sóknir á meðan ÍR liðið fékk ekki færi. Ísinn var þó ekki brotinn fyrr en á 44. mínútu að Guðmunda Óladóttir skoraði úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á henni í teignum.
Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik og Selfoss komst í 2-0 á 58. mínútu þegar Anna María Friðgeirsdóttir sendi boltann innfyrir á Guðmundu sem kláraði sóknina með marki. Fjórum mínútum síðar slapp Anna María innfyrir og fékk tvö dauðafæri í sömu sókninni en boltinn fór að lokum framhjá.
ÍR færði sig framar á völlinn síðustu tuttugu mínútur leiksins án þess að skapa nokkra hættu og hinu megin á vellinum var tíðin róleg fyrir utan tvö skot Guðmundu yfir markið.
Á 87. mínútu kláraði Katrín Ýr Friðgeirsdóttir svo leikinn. Guðmunda fékk góða sendingu innfyrir en renndi boltanum á Katrínu sem var í betra færi og skoraði auðveldlega. Tveimur mínútum síðar fékk Selfoss hornspyrnu og á endanum barst knötturinn til Thelmu Sifjar Kristjánsdóttur sem skoraði með góðu skoti úr miðjum vítateignum.
Að sjö umferðum loknum er Selfoss með 21 stig í efsta sæti riðilsins en næst kemur Fjölnir með 15 stig. Fjölnir á leik til góða gegn Haukum sem eru í 3. sæti með 12 stig.