Stokkseyringar heimsóttu Stál-úlf í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en leikurinn fór fram á gervigrasvellinum við Kórinn í Kópavogi.
Liðin eru að berjast á svipuðum stað á töflunni og því var útlit fyrir hörkuleik. Sú varð líka raunin en heimamenn komust yfir á 16. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.
Stokkseyringar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og höfðu komist yfir eftir rúmar tíu mínútur. Arnar Þór Ingólfsson jafnaði á 48. mínútu og átta mínútum síðar kom Örvar Hugason Stokkseyringum í 1-2.
Stál-úlfur jafnaði metin á 75. mínútu en aðeins fimm mínútum síðar skallaði Örvar knöttinn í netið fyrir Stokkseyri og staðan orðin 2-3. Stál-úlfarnir áttu hins vegar síðasta orðið í leiknum en jöfnunarmark þeirra á 85. mínútu var síðasta mark leiksins.
Lokatölur 3-3 og Stokkseyri er í 7. sæti riðilsins með 6 stig en Stál-úlfur hefur 7 stig í 6. sætinu.