Stokkseyringar léku á alls oddi þegar Ísbjörninn kom í heimsókn í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 4-1.
Stokkseyringar slógu á létta strengi þegar þeir auglýstu leikinn og sögðust ætla að senda Ísbjörninn aftur á Veiðisafnið á Stokkseyri. Óhætt er að segja að Örvar Hugason hafi tekið það verkefni að sér því hann hlóð í þrennu í leiknum og tryggði Stokkseyringum sigurinn.
Valdimar Gylfason kom Stokkseyringum yfir strax á 4. mínútu leiksins og Örvar kom Stokkseyringum í 2-0 á 17. mínútu. Indriði Hrannar Blöndal skoraði svo sjálfsmark á 34. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik.
Þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik skoraði Örvar þriðja mark Stokkseyringa og hann kórónaði svo þrennuna á 88. mínútu og tryggði heimamönnum 4-1 sigur.
Þetta var annar sigur Stokkseyringa í deildinni í sumar en þeir eru nú í 6. sæti riðilsins með níu stig.