Óskar Pálsson var endurkjörinn formaður, sem og öll stjórn Golfklúbbs Hellu, þegar aðalfundur klúbbsins var haldinn í golfskálanum á Strönd í gær.
Þetta verður sextánda ár Óskars sem formaður GHR. Með honum í stjórn eru Einar Long varaformaður, Katrín Björg Aðalbjörnsdóttir gjaldkeri, Bjarni Jóhannsson ritari og Gísli Jafetsson meðstjórnandi. Varamenn eru Guðný Rósa Tómasdóttir og Loftur Þór Pétursson.
Allar nefndir eru óbreyttar nema að Þorsteinn Ragnarsson gaf ekki kost á sér í áframhaldandi setu sem formaður kappleikjanefndar en við því tók Svavar Hauksson.
Formaður las skýrslu stjórnar og fór yfir það helsta sem gerst hafði á árinu, þakkaði starfsfólki, stjórn og nefndarmönnum fyrir vel unnin störf á árinu.
Eins og undanfarin ár voru veitt framfaraverðlaun og var það Fannar Aron Hafsteinsson sem hlaut þau að þessu sinni. Háttvísibikarinn hlaut Sveinn Sigurðsson en GSÍ gaf GHR þennan bikar í tilefni af 60 ára afmæli klúbbsins til þessara verðlauna.
Tuttugu og tveir félagar mættu á fundinn en fundarstjóri var Þorsteinn Ragnarsson.