Óskar Valberg Arilíusson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks Knattspyrnufélags Árborgar sem leikur í 4. deild karla.
Óskar tekur við starfinu af Guðjóni Bjarna Hálfdánarsyni sem lét af störfum nú í lok leiktíðar eftir að hafa stýrt liði Árborgar undanfarin fjögur keppnistímabil. Óskar hefur verið þjálfari Stokkseyrar í 4. deildinni undanfarin tvö ár.
Að sögn Guðjóns Bjarna, varaforseta félagsins, er mikil ánægja innan Árborgarfjölskyldunnar með ráðninguna. „Óskar er reynslumikill þegar kemur að sunnlenskri knattspyrnu auk þess sem hann þekkir Árborgarkúltúrinn mjög vel. Hann er metnaðarfullur, hress og ákveðinn þjálfari og passar vel við markmið Árborgar að vera félag með mikinn metnað og stór markmið auk þess sem við viljum halda í gleðina sem fylgir skemmtilegustu íþrótt heims,“ segir Guðjón Bjarni.