Stokkseyringar mæta tví- eða jafnvel þríefldir til leiks í 5. deild karla í knattspyrnu í sumar. Blekið hefur ekki þornað við samningaborðið að undanförnu en nýtt þjálfarateymi hefur haft allar klær úti á leikmannamarkaðinum.
Á dögunum varð sannkallaður hvalreki á Stokkseyri þegar félagið samdi við miðjumanninn Ingva Rafn Óskarsson. Ingva þarf ekki að kynna fyrir sunnlenskum knattspyrnuáhugamönnum, en við gerum það samt, hann er 32 ára gamall og kemur með gríðarlega reynslu og gæði inn í hópinn en hann hefur verið lykilleikmaður hjá Selfyssingum undanfarin ár.
Stokkseyringar hafa einnig samið við Arilíus Óskarsson, bróðir Ingva Rafns, en hann er 27 ára, fjölhæfur leikmaður sem hefur spilað fyrir Selfoss, Árborg og Ægi. Arilíus er þó öllum hnútum kunnugur á Eyrinni, því hann lék með Stokkseyri árin 2020 og 2023.
Ingvi Rafn og Arilíus hitta fyrir bróður sinn hjá Stokkseyri, varnarmanninn knáa Jóhann Fannar Óskarsson. Óskarssynir eru því loks sameinaðir á Stokkseyri en allir koma þeir bræður undan formanninum, öfluga, Óskari Arilíussyni frá Helgafelli.
Ekki er öll sagan sögð þegar kemur að leikmannamálum síðustu vikna því Stokkseyringar hafa einnig fengið Steinar Sigurjónsson frá Uppsveitum og Dag Guðjónsson frá Þrótti Vogum. Báðir eru þeir hoknir af reynslu en koma einnig með fegurð og gæði inn í leikmannahópinn.
Með þessum mannafla mun samfélagið á Stokkseyri að sjálfsögðu gera kröfu um árangur hjá liðinu en það er pressa sem nýju þjálfararnir, Kristján Freyr Óðinsson og Sveinn Fannar Brynjarsson óttast ekki.
Þó að enn séu rúmir þrír mánuðir í að Íslandsmótið hefjist geta spenntir stuðningsmenn Stokkseyrar tekið gleði sína strax í þessari viku, því Stokkseyri mætir KÁ í Lengjubikarnum næstkomandi fimmtudagskvöld á Selfossvelli.