Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson varð í kvöld fyrsti leikmaður Ungmennafélags Selfoss til að leika A-landsleik í knattspyrnu.
Jón Daði kom inná á 81. mínútu í leik Íslands gegn Andorra ytra. Ísland sigraði 0-2 og þannig var staðan þegar Jón Daði kom inná en hann leysti Matthías Vilhjálmsson af í fremstu víglínu.
„Það var ótrúleg tilfinning að fá að spila sínar fyrstu mínútur fyrir A-landsliðið sérstaklega þar sem þetta er alltaf búið að vera langtímamarkmið hjá mér,“ sagði Jón Daði í samtali við sunnlenska.is eftir leik en hann var ánægður þrátt fyrir að hafa ekki fengið margar mínútur inni á vellinum. „Já, að sjálfsögðu, það var fyrst og fremst bara þvílíkur heiður að hafa verið valinn í hópinn.“
Jón Daði var kallaður óvænt inn í landsliðshópinn á sunnudag vegna forfalla en landsliðsþjálfarinn Lars Lageraback var ánægður með að fá hann inn á þessum tímapunkti. „Jón Daði […] er hæfileikaríkur og verður spennandi að sjá hvernig hann þróast,“ sagði Lagerback í samtali við fotbolti.net eftir leik.
Knattspyrnumaðurinn knái fær ekki mikinn tíma til hvíldar en hann hefur á undanfarna daga verið til reynslu hjá Viking og Djurgården en um helgina verður hann við æfingar með U21 árs landsliði Íslands.
Jón Daði er fyrsti Selfyssingurinn til að spila A-landsleik í knattspyrnu verandi liðsmaður Selfoss. Sævar Þór Gíslason var fyrsti Selfyssingurinn til að spila A-landsleik en hann var leikmaður Fylkis þegar hann lék sjö leiki með landsliðinu árin 2001 til 2002.