„Ótrúlega sáttur með frammistöðuna“

Alli Murphy lék vel á miðjunni hjá Selfyssingum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýbakaðir bikarmeistarar Selfoss tóku á móti toppliði Vals í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Eftir hörkuleik hafði Valur 0-1 sigur.

„Fyrstu tíu mínúturnar af leiknum voru dálítið erfiðar hjá okkur. Síðan áttum við bara mjög góðan leik eftir það. Við erum að spila á móti geggjuðu liði þar sem hver leikmaðurinn er öðrum betri. Þó að ég sé svekktur með úrslitin þá er ég ótrúlega sáttur með frammistöðuna hjá liðinu mínu,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfoss var enn með hugann við bikarleikinn á upphafsmínútunum og voru heppnar að lenda ekki undir strax í fyrstu sókn Vals. Þær vínrauðu komust niður á jörðina eftir tíu mínútna leik og eftir það var leikurinn hnífjafn og fátt um færi.

Færin voru þó fleiri Valsmegin en staðan var 0-0 í hálfleik. Í upphafi síðari hálfleiks var Anna María Friðgeirsdóttir nálægt því að skora úr aukaspyrnu en boltinn fór í þverslána. Nær komust Selfyssingar ekki og Valur skoraði sigurmarkið á 66. mínútu þegar boltinn datt fyrir Hlín Eiríksdóttur í vítateignum og hún hamraði hann í netið.

Eftir fjórtán umferðir er Selfoss í 4. sæti deildarinnar með 22 stig og mætir næst Þór/KA, sem situr í 3. sæti, á útivelli á sunnudag.

Fyrri greinAllir vinningsmiðarnir seldir í Bjarnabúð
Næsta greinTvenna Tokic kláraði KFG