Kvennalið Selfoss vann sterkan sigur á Haukum í Olís-deildinni í handbolta í Vallaskóla í kvöld. Lokatölur urðu 28-25.
Það er stutt á milli leikja hjá Selfossliðinu þessa dagana. Selfoss vann Fylki á sunnudaginn og leikur næst gegn Haukum á laugardag. Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, viðurkenndi fúslega að liðið hefði verið þreytt í kvöld.
„Tveir hörkuleikir á þremur sólarhringum og eftir góða byrjun í kvöld urðum við fljótt bensínlausar. En við fundum samt löngunina til þess að vinna og náðum að finna meiri kraft en Haukarnir til þess að klára leikinn. Ég get ekki verið annað en ótrúlega stoltur af liðinu,“ sagði Sebastian eftir leik.
Selfoss byrjaði mjög vel í leiknum og þó að mistökunum hafi fjölgað þegar leið á fyrri hálfleikinn þá náðu þær vínrauðu mest fimm marka forskoti, 13-8. Haukar minnkuðu muninn í 14-11 fyrir leikhlé.
Í seinni hálfleik náðu gestirnir að komast yfir, 17-18, en Selfoss svaraði strax og hafði frumkvæðið út leikinn. Lokakaflinn var magnaður en Selfoss náði að halda aftur af Haukum og rúmlega það. Haukar skoruðu aðeins tvö mörk á síðustu sjö mínútunum og Selfoss náði aftur fjögurra marka forskoti.
Eftir tvo sigra í röð er Selfoss nú með 8 stig eins og Grótta, en er áfram í 7. sætinu. Haukar eru í 4. sæti með 12 stig.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 13/8 mörk fyrir Selfoss í kvöld. Hún var í strangri gæslu í seinni hálfleiknum en örugg á vítalínunni. Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 5 mörk, Dijana Radojevic og Carmen Palamariu skoruðu báðar 3 mörk og Arna Einarsdóttir og Adina Ghidoarca skoruðu báðar 2 mörk.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 13/1 skot, mörg á mikilvægum augnablikum, og Áslaug Ýr Bragadóttir varði 2 skot.