Hamarskonur nálguðust sæti í úrslitakeppni Domino's-deildarinnar í körfubolta með frábærum útisigri á Keflavík í kvöld, 84-88, þar sem Chelsie Schweers skoraði 54 stig fyrir liðið.
Keflavík byrjaði betur og komst í 13-5 en Hamar jafnaði 16-16 á síðustu sekúndum 1. leikhluta. Jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta, Hamar komst í 22-29 en Keflavík svaraði með 11-3 áhlaupi og leiddi í hálfleik, 41-36.
Keflavík hélt fimm stiga forskoti sínu í lok 3. leikhluta eftir að Hamar hafði jafnað 44-44 í upphafi seinni hálfleiks. Staðan var 58-53 þegar síðasti fjórðungurinn hófst og við tóku spennandi mínútur.
Hamar komst yfir þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum, 71-72 en staðan var 79-79 þegar 53 sekúndur voru eftir. Schweers kom Hamri tveimur stigum yfir með vítaskotum en hún var ákaflega örugg á vítalínunni á lokasekúndunum á meðan sóknir Keflvíkinga klikkuðu.
Það er óhætt að segja að Schweers hafi dregið Hamarsvagninn í kvöld en hún skoraði 54 stig og tók 13 fráköst og var með 55 í framlagseinkunn. Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 12 stig, Íris Ásgeirsdóttir 11, Fanney Guðmundsdóttir 9 auk 13 frákasta og Regína Ösp Guðmundsdóttir skoraði 2 stig.
Hamarskonur hafa nú 22 stig og eru tveimur stigum frá sæti í úrslitakeppninni þegar þrjár umferðir eru eftir. Næsti leikur liðsins er gegn Grindavík heima á sunnudaginn kl. 19:15.