Selfoss og Grótta skildu jöfn í úrvalsdeild kvenna í handbolta í kvöld eftir ótrúlegar lokamínútur. Lokatölur urðu 23-23.
Baráttan var mikil í fyrri hálfleiknum og kappið raunar svo mikið að það bar fegurðina ofurliði. Selfoss náði mest þriggja marka forskoti en staðan í hálfleik var 11-10.
Selfyssingar voru frábærar í upphafi seinni hálfleiks og eftir fimm mörk í röð frá þeim vínrauðu var staðan orðin 17-12. Þá fór sóknin að hiksta en Grótta spilaði frábæra vörn og gestirnir náðu að jafna, 20-20, þegar rúmar átta mínútur voru eftir.
Jafnt var á öllum tölum eftir það en bæði lið fengu tækifæri til þess að gera út um leikinn á lokamínútunni. Selfoss missti boltann þegar 9 sekúndur voru eftir og Gróttukonur skutu framhjá úr galopnu færi þegar 4 sekúndur voru eftir. Niðurstaðan jafntefli og liðin skiptu með sér stigunum.
Sara Dröfn Richardsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 4/1, Katla María Magnúsdóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir 3, Hulda Hrönn Bragadóttir 2 og þær Harpa Valey Gylfadóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir skoruðu 1 mark hvor. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 10 skot í marki Selfoss.
Selfoss er áfram í 4. sæti deildarinnar, nú með 14 stig en Grótta er á botninum með 6 stig.