Hamar-Þór vann magnaðan sigur á Ármanni í dag í 1. deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í dag. Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit, en lokatölur urðu 87-86.
Ármann hafði yfirhöndina stærstan hluta leiksins og leiddi í leikhléi, 26-33. Þegar tæplega tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum stefndi allt í sigur Ármanns en staðan var þá 53-68. Þá kom ótrúlegur kafli hjá Hamri-Þór sem gerði 19-4 áhlaup á lokamínútunum og Fallyn Stevens setti meðal annars niður fjórar þriggja stiga körfur. Hún jafnaði 72-72 þegar 14 sekúndur voru eftir og tryggði Hamri-Þór framlengingu.
Ármann skoraði fyrstu fimm stigin í framlengingunni en Hamar-Þór náði að jafna og skiptust liðin á um að halda forystunni á lokakaflanum. Þegar átta sekúndur voru eftir leiddi Ármann með tveimur stigum, 84-86. Hamar-Þór tók leikhlé og stillti upp í lokasókn og úr henni skoraði Hildur Björk Gunnsteinsdóttir sigurkörfuna fyrir utan þriggja stiga línuna þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum. Lokatölur 87-86.
Fallyn Stephens átti frábæran leik fyrir Hamar-Þór, skoraði 46 stig og tók 11 fráköst. Hildur Björk skoraði 12 stig og Gígja Marín Þorsteinsdóttir var sömuleiðis sterk með 11 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.
Hamar-Þór er áfram í 4. sæti deildarinnar með 12 stig en Ármann er í 8. sæti með 6 stig.
Tölfræði Hamars-Þórs: Fallyn Stephens 46/11 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 12/4 fráköst, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 11/6 fráköst/6 stoðsendingar, Hrafnhildur Magnúsdóttir 9/7 fráköst/9 stoðsendingar, Perla María Karlsdóttir 5, Helga María Janusdóttir 3, Ása Lind Wolfram 1.