Ótrúlegur sigur hjá Árborg

Tvö mörk í uppbótartíma tryggðu Knattspyrnufélagi Árborgar ótrúlegan 2-1 sigur á KFS þegar liðin mættust í 3. deild karla í gærkvöldi.

Árborgarar voru sterkari fyrstu tuttugu mínúturnar og fengu tvö dauðafæri sem markvörður gestanna varði. Þegar leið á seinni hálfleik sótti KFS í sig veðrið og Aron Leifsson bjargaði í tvígang mjög vel í Árborgarmarkinu, 0-0 í hálfleik.

KFS hafði áfram yfirhöndina í upphafi seinni hálfleiks og strax á 50. mínútu komust Eyjamenn yfir með glæsilegu marki frá Sæþóri Jóhannessyni. Síðasta hálftímann gerðu bæði lið sig gildandi en fátt var um færi og á 90. mínútu virtist allt stefna í sigur KFS.

Árborgarar lögðu þó ekki árar í bát og uppskáru mörk eftir föst leikatriði. Jóhann Bjarnason sýndi að allt er fertugum fært en hann skoraði jöfnunarmarkið af einstakri yfirvegun úr markteignum á 92. mínútu og mínútu síðar skoraði Hrunamaðurinn knái, Kristján Valur Sigurjónsson, af stuttu færi eftir barning í teignum.

Þetta var fyrsti leikur þeirra Kristjáns og Jóhanns í sumar. Kristján og Steinar Sigurjónsson, sem leika með 2. flokki Selfoss/Árborgar, fengu leikheimild með Árborg í dag og spiluðu báðir í 90 mínútur. Jóhann var kallaður óvænt inn í hóp vegna forfalla en þessi goðsögn í sögu Árborgar lék síðast leik með liðinu árið 2008.

Fyrri greinKFR situr sem fastast á botninum
Næsta grein+5 á öðrum hring hjá Andra Má