Hamar tapaði óvænt gegn botnliði RB í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Árborg gerði jafntefli við KFS úti í Eyjum.
Hamar hefði getað komist í toppsætið með sigri á RB í kvöld en fékk óvænta mótspyrnu á Grýluvelli. Leikurinn var markalaus lengi vel þó að bæði lið hefðu fengið frábær færi en á 82. mínútu skoraði RB eina mark leiksins og sigraði 0-1. Skellur fyrir Hvergerðinga.
Árborg heldur áfram að safna jafnteflum en liðið mætti KFS á Týsvelli í kvöld. Sigurður Óli Guðjónsson kom Árborg yfir í fyrri hálfleik með fallegu marki og staðan var 0-1 í hálfleik. Eyjamenn komust yfir áður en seinni hálfleikur var hálfnaður með tveimur mörkum uppúr föstum leikatriðum. Árborg sótti stíft í lokin og uppskar jöfnunarmark á 88. mínútu sem var sjálfsmark KFS.
Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 20 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Ýmis. Árborg er í 5. sæti með 16 stig, jafnmörg stig og KH og Tindastóll sem eru í 3.-4. sæti.