Óvænt úrslit í nágrannaslagnum

Vojtéch Novák (24) átti stórleik fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Botnlið Selfoss gerði sér lítið fyrir og skellti toppliði Hamars í tvíframlengdum nágrannaslag í 1. deild karla í körfubolta á Selfossi í kvöld.

Selfyssingar sýndu það frá fyrstu mínútu að þeir ætluðu ekki að gefa þumlung eftir í baráttunni við toppliðið. Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik, Hamar leiddi 22-23 eftir 1. leikhluta og Hvergerðingar voru enn yfir í hálfleik, 45-46.

Hamar tók frumkvæðið í upphafi seinni hálfleiks og náði tíu stiga forskoti en Selfoss minnkaði muninn í eitt stig í upphafi 4. leikhluta, 70-71. Lokaspretturinn var æsispennandi, Hamar jafnaði 82-82 þegar hálf mínúta var eftir og Selfyssingar fengu tvö tækifæri til að tryggja sér sigurinn í venjulegum leiktíma en það tókst ekki.

Jafnt var á nánast öllum tölum í framlengingunni og undir lok hennar voru það Hamarsmenn sem fengu tvö tækifæri til þess að gera út um leikinn en skotin brugðust. Staðan orðin 92-92 og aftur var framlengt.

Í 2. framlengingu voru Selfyssingar í miklum ham. Þeir náðu strax fjögurra stiga forskoti og sáu við öllum brögðum Hvergerðinga. Hamar minnkaði muninn í eitt stig þegar tvær mínútur voru eftir en Selfoss átti lokaorðið og vann að lokum öruggan sigur, 113-106.

Vojtéch Novák var framlags- og stigahæstur Selfyssinga með 25 stig og 11 fráköst og Arnór Bjarki Eyþórsson smellti í þrefalda tvennu með 18 stig, 14 fráköst og 10 stoðsendingar. Hjá Hamri var gamla brýnið Fotios Lampropoulos í miklu stuði með 24 stig og 12 fráköst.

Sigur Selfoss felldi Hamar úr toppsæti deildarinnar, Hamar er í 2. sæti með 28 stig en Selfoss í 11. og næst neðsta sæti með 10 stig.

Selfoss-Hamar 113-106 (22-23, 23-23, 19-25, 18-11, 10-10, 21-14)
Tölfræði Selfoss: Vojtéch Novák 25/11 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Gísli Steinn Hjaltason 19/10 fráköst, Arnór Bjarki Eyþórsson 18/14 fráköst/10 stoðsendingar, Ari Hrannar Bjarmason 18/6 fráköst, Fróði Larsen Bentsson 11/4 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 10/8 fráköst/8 stoðsendingar, Óðinn Freyr Árnason 6, Birkir Máni Sigurðarson 6.
Tölfræði Hamars: Fotios Lampropoulos 34/12 fráköst, Jose Medina 33/9 stoðsendingar, Lúkas Aron Stefánsson 10/7 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 9/11 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 8/8 stoðsendingar, Daníel Sigmar Kristjánsson 6/5 stolnir, Birkir Máni Daðason 6.

Fyrri greinAdeyemo með þrennu í fyrsta leik
Næsta greinMættu ofjörlum sínum á Meistaravöllum