„Við vorum mun betri aðilinn í leiknum og áttum skilið að sigra. Við pressuðum þá stíft og vorum sterkari í vörn og sókn,” sagði Andri Freyr Björnsson, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Þetta eru mikilvæg þrjú stig og nú höfum við spilað tvo góða leiki í röð þannig að við byggjum bara áfram ofan á það,” sagði Andri og bætti við að Selfyssingar hafi þurft að vera þolinmóðir í fyrri hálfleik.
„Við þurftum að bíða dálítið eftir fyrsta markinu. Við vissum að þeir kæmu brjálaðir inn í leikinn, búnir að tapa þremur leikjum í röð. En eftir að við brutum ísinn þá var aldrei spurning um hvernig þetta myndi enda.”
Bakvörðurinn knái skoraði tvö fyrstu mörk Selfoss í leiknum í kvöld og var um mjög snyrtilegar afgreiðslur að ræða í báðum tilvikum. Þetta voru fyrstu deildarmörk Andra síðan 5. júlí 2008 en hann var búinn að ákveða að skora í dag.
„Ég hugsaði í morgun að ég myndi skora tvö mörk í dag. Ég er bakvörður þannig að það er oft erfitt að komast í færin en ef hugarfarið er rétt þá er þetta ekkert mál. Góðir bakverðir skora mörk,” sagði Andri og glotti.
Andri fór í uppskurð vegna ökklameiðsla í lok janúar og byrjaði ekki að æfa fyrr en í lok mars. Hann segist vera kominn í gott stand enda hefur hann æft vel að undanförnu.
„Ég er búinn að æfa tvisvar á dag frá því í apríl þannig að ég er að komast í klassaform. Ég æfi á morgnana áður en ég fer í vinnuna og síðan hef ég verið að taka spretti á kvöldin með pabba og það hefur skilað sér alveg fáránlega vel. Pabbi er góður æfingafélagi, hann sér um að koma stráknum í form.”