Pachu framlengir við Selfoss

Iván „Pachu“ Martínez Gutiérrez framlengdi í dag samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss til tveggja ára, til loka tímabilsins 2018.

Pachu er 28 ára miðjumaður sem gekk í raðir Selfoss í vetur frá norska liðinu Gjøvik-Lyn. Hann hefur staðið sig mjög vel með liði Selfoss í sumar, sem situr nú í 6. sæti Inkasso-deildarinnar og fór í undanúrslit bikarkeppninnar. Pachu hefur spilað nítján leiki fyrir Selfoss í sumar og skorað í þeim sex mörk.

„Ég er mjög ánægður með að vera hluti af Selfossliðinu og er mjög sáttur við tímabilið hingað til. Félagið er gott og mér líður vel hér, svo af hverju ekki að taka tvö ár í viðbót?,“ sagði Pachu í samtali við sunnlenska.is.

„Vera mín í Noregi hjálpaði mér örugglega að aðlagast íslenska boltanum. Ég náði að aðlagast honum hratt og ég hef bætt mig hér sem leikmaður undir stjórn Gunna [Gunnars Borgþórssonar]. Ég er ekki gamall, bara 28 ára, þannig að ég á nokkur góð ár eftir og get enn þróast sem leikmaður. Gunni og þessi góða umgjörð um liðið hér á Selfossi mun hjálpa mér við það,“ segir Pachu, en hann er sjálfur með UEFA-A þjálfaragráðu og meistarapróf í íþróttarekstrarfræði (e. sports management).

„Með minn bakgrunn get ég hjálpað félaginu að vaxa og leiðbeint ungu leikmönnunum og gert þá betri. Það er eitthvað sem ég hlakka mikið til að gera,“ segir Spánverjinn, og hann er ánægður á Selfossi.

„Já, ég bý hérna með kærustunni minni. Hún er að vinna á hóteli og við erum bæði mjög ánægð hérna. Selfyssingar koma fram við okkur eins og við séum innfædd, og það gleður okkur hvað við höfum fengið hlýlegar móttökur.“

Adólf Bragason, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, segir að gríðarleg ánægja sé í herbúðum liðsins með að Pachu hafi framlengt samning sinn.

„Við erum að vinna eftir ákveðinni hugmyndafræði og við viljum gefa ungum leikmönnum tækifæri á að spila í meistaraflokki. Þess vegna þurfum við að velja okkar erlendu leikmenn mjög vel og passa að þeir falli að því sem við erum að gera. Pachu er ekki bara góður í fótbolta, hann er alvöru maður og frábær fyrirmynd fyrir okkar drengi í alla staði,“ sagði Adólf í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinAfhending verknámshúss FSu dregst
Næsta greinÞakklátir fyrir góðar viðtökur