Páll Bragi Hólmarsson í Austurkoti í Sandvíkurhreppi mun stýra íslenska landsliðinu á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Danmörku 3.-6. ágúst næstkomandi.
Páll Bragi hefur verið liðsstjóri íslenska landsliðsins á tveimur Norðurlandamótum auk þess sem hann hefur verið liðsstjóri og þjálfari finnska landsliðsins í nokkur ár.
„Þetta er mikill heiður og ég er mjög þakklátur fyrir að mér skuli hafa verið falið þetta hlutverk. Það er mér hjartans mál að þetta gangi vel,“ segir Páll Bragi í samtali við Morgunblaðið.
„Við ætlum að hlúa betur að kynbótahrossunum en hefur verið. Jafnmikill metnaður verður lagður í þau og sporthestana,“ segir Páll Bragi og bætir við að þrír þjálfarar verði með í för og muni einn þeirra sjá um kynbótahlutann, einn um ungmennin og einn um fullorðna, en allir myndi þeir eitt teymi með honum.