Pálmi Geir Jónsson körfuknattleiksmaður var kjörinn íþróttamaður Íþróttafélagsins Hamars 2020 á aðalfundi félagsins sem haldinn síðastliðinn sunnudag.
Pálmi Geir er einn af burðarásum í meistaraflokksliði Hamars í körfubolta sem nú berst um efstu sætin í 1. deildinni. Í greinargerð með kjörinu segir að Pálmi Geir sé einn reyndasti maður meistaraflokks karla í körfuknattleik hjá Hamri en hann er fyrirliði liðsins.
Pálmi Geir er afburða leikmaður sem er alltaf tilbúinn að leggja sig 100% fram til þess að liðið nái góðum árangri. Hann er góð fyrirmynd jafnt innan sem utan vallar fyrir bæði liðsfélaga og þá sem yngri eru. Hann er alltaf tilbúinn að leiðbeina sem þeim yngri er og er það ómetanlegt að hafa innanborðs mann með viðlíka reynslu og hann hefur, segir í greinargerðinni.
Fjórir aðrir íþróttamenn fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu og voru í kjöri til íþróttamanns Hamars. Það voru þau Margrét Guang Hu, badmintonkona, Jakub Madej, blakmaður, Karen Inga Bergsdóttir, knattspyrnukona og María Clausen Pétursdóttir, sundkona.