Patrekur tekur við Skjern – „Selfoss á stóran stað í hjarta mínu“

Patrekur Jóhannesson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, er næsti þjálfari dönsku meistaranna í Skjern. Patrekur gerir þriggja ára samning við Skjern og tekur við liðinu þann 1. júlí næstkomandi en samningur hann við Selfoss rennur út í vor.

Þetta var tilkynnt á heimasíðu austurríska handknattleikssambandsins laust eftir klukkan sjö í morgun. 

„Ég hef fengið fyrirspurnir um þjálfun erlendis en alltaf ýtt því frá mér, þangað til þetta kom upp. Þetta er stór klúbbur og eftir heimsókn til þeirra á dögunum þá sá ég hvað þetta er öflugt félag. Þetta eru 100% atvinnumenn og mér finnst möguleikinn á að vinna með svona leikmönnum í þetta stórum klúbbi mjög heillandi verkefni. Þeir eru með góðan hóp og strúktúrinn í félaginu er sömuleiðis góður. Það er hjarta í þessum klúbbi, ekki ósvipað því sem ég hef kynnst á Selfossi en á mun stærri mælikvarða,“ sagði Patrekur í samtali við sunnlenska.is. „Það var semsagt mjög margt þarna sem mér leist vel á og það er ánægjulegt fyrir mig að fá þetta tækifæri.“

„Ég er ekkert að fara að slaka á“
Patrekur tók við Selfossliðinu fyrir tímabilið 2017-2018. Selfyssingum hefur gengið vel undir hans stjórn og verið í toppbaráttu Olísdeildarinnar. Patrekur segir að það verði erfitt að kveðja Selfoss.

„Ég er atvinnumaður í þessari grein og auðvitað er alltaf spurning hvaða skref maður á að taka. Það hefur gengið vel á Selfossi en þegar ég var ráðinn þar í upphafi þá vildu þeir gera eins árs samning. Ég náði að væla í gegn tveggja ára samning og hef verið afskaplega ánægður á Selfossi og þeir vildu svo framlengja samninginn aftur næsta vor. Selfoss hafði í mörg ár verið í 1. deildinni en núna hefur leiðin legið upp á við og annað árið í röð erum við í toppbaráttu í deildinni. Við ætluðum okkur að berjast um alla titla, auðvitað var það háleitt markmið, en okkur hefur gengið vel. Þetta hefur verið frábær tími, andinn í félaginu er góður og mér hefur liðið vel. Ég er ekkert að fara að slaka á þó að ég hafi samið við Skjern, ég fókusa bara á einn kafla í einu, nú er það bara HM með austurríska landsliðinu þar sem ég er með samning til 2020. Síðan heldur Olísdeildin og bikarinn áfram hér heima og ég klára minn samning við Selfoss og fer svo til Danmerkur næsta sumar,“ segir Patrekur ennfremur.

„Markmið að kveðja með titli“
„Selfoss á stóran stað í hjarta mínu, ég hef eignast vini hérna og kynnst frábærum krökkum í akademíunni. Ég verð áfram í tengingu við félagið og er boðinn og búinn að aðstoða næsta þjálfara með allt sem hann þarf til þess að setja sig inn í starfið,“ segir Patrekur að lokum, en hvernig líst honum á lokasprettinn með Selfyssingum?

„Við vorum mjög nálægt því að vinna bikar í fyrra og auðvitað er það markmiðið að kveðja með einhverjum titli. Ég gerði það þegar ég hætti hjá Haukum, þá vann liðið átta síðustu leikina og varð Íslandsmeistari. Eitthvað sem engum öðrum hefur tekist. Við erum ennþá inni í öllum keppnum. Ég ætla samt ekki að fara að lofa neinu núna, nema því að við munum berjast fyrir því að ná í titil og gera allt til þess að Selfoss vinni stóran bikar í fyrsta sinn.“

„Erum auðvitað farin að líta í kringum okkur“
Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, segir að þar á bæ samgleðjist menn Patreki. „Hann er búinn að halda okkur upplýstum um samskiptin við Skjern og við erum að sjálfsögðu ánægð fyrir hans hönd. Þetta er stórt tækifæri fyrir hann og að svona öflugt lið velji hann sem þjálfara finnst mér líka vera töluverð viðurkenning á því góða starfi sem verið er að vinna hjá deildinni hér á Selfossi,“ sagði Þórir og bætti við að leitin að eftirmanni Patreks væri þegar hafin. „Við skoðum þetta í rólegheitunum en erum auðvitað farin að líta í kringum okkur.“

Fyrri greinMeiriháttar kókosbollakökur með döðlukókoskremi
Næsta greinPakkaþjónusta jólasveinanna í Ingólfsfjalli