Kvennalið Selfoss tapaði með sjö mörkum gegn sterku liði Hauka í Vallaskóla í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld.
Selfoss byrjaði betur í leiknum og leiddi 5-2 eftir tæpar tíu mínútur. Þá svöruðu Haukar fyrir sig með fimm mörkum í röð, komust í 5-7 og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Staðan var orðin 8-15 í hálfleik. Munurinn hélst svipaður í seinni hálfleiknum og lokatölur urðu 20-27.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk og Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 7. Elva Rún Óskarsdóttir, Hulda Dís Þrastardóttir, Arna Kristín Einarsdóttir, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir og Sigríður Lilja Sigurðardóttir skoruðu allar 1 mark.
Viviann Petersen varði 9 skot í marki Selfoss og var með 25% markvörslu.
Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 5 stig en Haukar eru í 2. sæti með 19 stig.