Handknattleiksfólkið Perla Ruth Albertsdóttir og Elvar Örn Jónsson voru valin íþróttakona og íþróttakarl ársins 2017 hjá Ungmennafélagi Selfoss, en verðlaunahátíð félagsins var haldin í félagsheimilinu Tíbrá í kvöld.
Perla Ruth er lykileikmaður í ungu liði Selfoss sem tryggði sér áframhaldandi sæti í Olísdeildinni í vor og situr í 6. sæti deildarinnar sem stendur. Perla hefur skorað um 150 mörk á árinu og var valin nokkrum sinnum í æfingahóp A-landsliðsins á árinu og lék þrjá fyrstu landsleiki sína í nóvember, var alltaf í byrjunarliði og skoraði 10 mörk.
Elvar Örn er fyrirliði ungs liðs meistaraflokks Selfoss í handbolta, sem er stendur í 4. sæti Olísdeildarinnar. Elvar var í lykilhlutverki með U21 landsliðinu í forkeppni og lokakeppni HM í sumar. Hann hefur einnig verið valinn í A-landsliðshópinn tvisvar sinnum á árinu og var valinn besti miðjumaður Olisdeildarinnar síðastliðið vor.
Á verðlaunahátíðinni var íþróttafólk ársins í flestum deildum félagsins heiðrað auk þess sem hjónin Bogi Karlsson og Kristín Guðmundsdóttir voru sæmd silfurmerki félagsins en þau hafa stutt við bakið á öllum deildum ungmennafélagsins um áraraðir og Bogi hefur sinnt ýmsum stjórnar- og nefndarstörfum í gegnum tíðina.