„Þó að maður segi sjálfur frá þá er það mjög vel gert að fara taplausir í gegnum veturinn,“ sagði Sigurður Orri Hafþórsson, fyrirliði Laugdæla, eftir að liðið vann deildarmeistaratitilinn í 2. deild karla í körfubolta í dag.
„Þetta er búinn að vera frábær vetur og markmiðin voru skýr fyrir úrslitahelgina. Pétur er búinn að vera að pína okkur í allan vetur og þetta er mikið honum að þakka. Hann lét okkur æfa eins og menn og uppskeran er eftir því,“ sagði Sigurður ennfremur. Laugdælir léku 21 deildarleik í vetur og fóru alltaf með sigur af hólmi.
„Síðast þegar við vorum í 1. deild þá gerðum við gjörsamlega í brækurnar en nú er kominn tími á að sýna að við eigum heima þarna og það er það sem við ætlum að gera,“ sagði Sigurður að lokum.