Pílukastfélag Árborgar var formlega stofnað síðastliðinn miðvikudag, á stofnfundi í Tíbrá á Selfossi.
Tíu manns mættu á fundinn sem hófst á því að gestur fundarins, Ingibjörg Magnúsdóttir, kynnti í stuttu máli sögu og þróun pílukasts á Íslandi.
Fyrsta mál á dagskrá var að velja nafn á félaginu og hlaut það nafnið Pílukastfélag Árborgar, skammstafað PFÁ. Markmið félagsins er að efla og skipuleggja pílukast á Árborgarsvæðinu, ásamt því að stuðla að þróun og bættu aðgengi að íþróttinni. Einnig mun félagið vinna í uppbyggingu á pílukasti fyrir ungmenni á svæðinu.
Alex Daníel Dúason var kosinn formaður félagsins en með honum í stjórn eru Þórólfur Sævar Sæmundsson, varaformaður, Stefán Orlandi, gjaldkeri, Halldór Þór Svavarsson, ritari og Þorgrímur Dúi Jósefsson, meðstjórnandi. Varamenn í stjórn eru Elmar Viðarsson og Magnús Sigurðsson og endurskoðandi ársreikninga María Ágústsdóttir.
Félagið hefur komið sér upp Facebook síðu sem áhugasamir eru hvattir til að skoða en allir þeir sem hafa áhuga á að skrá sig í félagið geta haft samband í gegnum síðuna.