Knattspyrnudeild Hamars hefur sagt Salih Heimi Porca, þjálfara meistaraflokks karla, upp störfum og hafa Ágúst Örlaugur Magnússon og Kristmar Geir Björnsson tekið við þjálfun liðsins.
Hamar gerði nýjan tveggja ára samning við Heimi í haust en vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar á deildinni þarf að skera niður kostnað og nýttu Hamarsmenn þess vegna uppsagnarákvæði í samningnum við Heimi.
“Ég virði ákvörðun félagsins þegar kemur að erfiðleikum í rekstrinum. Þeir nýta þarna uppsagnarákvæði í samningnum okkar og þetta er ástæðan fyrir því að menn gera samninga,” sagði Heimir í samtali við sunnlenska.is.
Heimir tók við liði Hamars fyrir síðasta keppnistímabil og undir hans stjórn varð liðið í 9. sæti 2. deildar.
“Ég kunni vel við mig í Hveragerði og vil þakka Hamarsmönnum fyrir að taka vel á móti mér. Sérstaklega vil ég þakka stjórnarmönnunum Eyjólfi Harðarsyni, Valgeiri Ásgeirssyni og Halldóri Jónssyni fyrir gott samstarf og óska þeim alls góðs í framtíðinni bæði innan og utan vallar,” sagði Heimir ennfremur.
Nýju þjálfararnir þekkja Hamarsliðið vel því Ágúst Örlaugur hefur leikið með liðinu undanfarið fimm ár og verið fyrirliði þess síðustu ár og Kristmar var spilandi þjálfari þess árin 2006 og 2007.