Selfoss og FH gerðu 30-30 jafntefli í frábærum handboltaleik í N1-deild karla í kvöld. Selfoss er nú með 8 stig, eins og Afturelding, á botni deildarinnar.
Leikurinn bauð upp á allt sem íþróttin getur boðið uppá í 60 mínútur; hraða, spennu, frábær tilþrif og mistök bæði leikmanna og dómara. Ekki skemmdi fyrir metmæting í íþróttahús Vallaskóla í vetur og minnti stemmningin á pöllunum á gömlu góðu dagana í handboltanum á Selfossi.
Fyrri hálfleikur var jafn en þegar leið að lokum hans náði FH þriggja marka forskoti, 12-15. Staðan var 14-16 í hálfleik. Markaskorun Selfyssinga var dreifð í fyrri hálfleik og Sebastian Alexandersson varði 6 skot í markinu.
FH komst í 14-18 í upphafi seinni hálfleiks en Selfyssingar voru fljótir að jafna, 19-19. Eftir það var jafnræði með liðunum en FH-ingar skrefinu á undan í markaskoruninni. Gestirnir náðu þriggja marka forskoti, 23-26, þegar rúmar 13 mínútur voru eftir af leiknum en Selfos jafnaði 27-27 og staðan var 29-29 þegar ein og hálf mínúta var eftir.
Liðin spiluðu langar sóknir undir lokin en Selfyssingar fengu dæmda á sig línu þegar mínúta var eftir og FH brunaði í sókn. Ólafur Guðmundsson kom FH yfir, 29-30, þegar 15 sekúndur voru eftir og Selfoss tók strax leikhlé.
Í lokasókninni gekk boltinn manna á milli þangað til Guðjón Drengsson fékk boltann í vinstra horninu og laumaði honum á milli fóta Pálmars Péturssonar í marki FH. Allt ætlaði um koll að keyra á áhorfendapöllunum enda sóttu Selfyssingar sér dýrmætt stig í botnbaráttunni. Atli Kristinsson skoraði mikilvæg mörk í seinni hálfleik og Birkir Bragason átti nokkrar frábærar markvörslur en hann varði 12 skot í seinni hálfleik.
Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 10/2 mörk, Atli Kristinsson skoraði 6, Guðjón Drengsson og Einar Héðinsson 4, Andrius Zigelis og Helgi Héðinsson 2 og þeir Milan Ivancev og Atli Hjörvar Einarsson skoruðu báðir 1 mark.
Sebastian varði 6 skot í fyrri hálfleik og Birkir Bragason 12 í þeim seinni.