Það var allt undir í nágrannaslag Hamars og FSu í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar hafði sigur í framlengingu eftir æsispennandi lokakafla, 101-97.
Hamarsmenn hafa átt erfitt uppdráttar í haust og það var ljóst að Braga Bjarnasyni, þjálfara var létt eftir leikinn. „Manni líður bara eins og við höfum komist upp. Þetta er búið að vera basl í vetur en nú gekk þetta upp, við spiluðum hörkuvörn og börðumst um hvern einasta bolta frá fyrstu sekúndu leiksins,“ sagði Bragi í samtali við sunnlenska.is.
„Þetta var æðislegur liðssigur og léttir pressuna á okkur gríðarlega. Nú erum við búnir að læra að vinna og mætum fullir sjálfstrausts í næsta leik. Þeir settu þrist á okkur í upphafi framlengingarinnar en við trúðum á leikplanið okkar, svöruðum vel fyrir okkur og gáfumst aldrei upp. Við sýndum undir lokin að við vildum þetta, þetta var bara spurning um vilja,“ sagði Bragi ennfremur.
Hamarsmenn mættu snarbrjálaðir til leiks og virtust koma gestunum í opna skjöldu. FSu tók leikhlé í stöðunni 10-2 og eftir það gekk betur hjá gestunum en Hamar leiddi að loknum 1. leikhluta, 28-22.
FSu átti góðan kafla í 2. leikhluta, spiluðu góða vörn og Hamarsmönnum varð lítið ágengt í sókninni og sannaðist þar að kapp er best með forsjá. FSu sigldi rólega framúr og leiddi í hálfleik, 40-45.
Hamar skoraði fyrstu níu stigin í seinni hálfleik og hafði forystuna út 3. leikhluta en munurinn var ekki mikill og þegar síðasti fjórðungurinn hófst skildu tvö stig liðin að, 62-60. FSu hvíldi Collin Pryor megnið af 3. leikhluta en hann var kominn með fjórar villur stax í upphafi seinni hálfleiks.
Hvergerðingar byrjuðu betur í 4. leikhluta og komust í 70-62 en FSu jafnaði 70-70 og spennustigið hækkaði. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir hófst sannkölluð flugeldasýning: Troðsla frá Pryor, þriggja stiga sleggja frá Danero Thomas hinu megin, glæsitvistur frá Hlyni Hreinssyni og þristur utan úr bæ frá Halldóri Jónssyni.
Staðan 83-78 eftir þessa frábæru syrpu og tvær mínútur á klukkunni. En fjörið var ekki búið. FSu minnkaðu muninn í þrjú stig þegar 55 sekúndur voru eftir og í kjölfarið skiptust liðin á að glopra frá sér boltanum þangað til Svavar Stefánsson tók stóra skotið fyrir FSu og jafnaði, 83-83, þegar 24 sekúndur voru eftir. Bæði lið fengu færi til að klára leikinn á síðustu sekúndunum en skotin geiguðu og áhorfendur svitnuðu.
Svavar var ekki hættur því hann byrjaði framlenginguna á því að henda þrist í andlitið á Hamarsmönnum en Hvergerðingar gáfust ekki upp og með viljann að vopni kláruðu þeir leikinn með hausinn uppi. Halldór Jónsson setti ískaldur niður mikilvæg vítaskot fyrir Hamar en hinu megin leituðu Selfyssingar mikið að Pryor þar sem Ari var farinn af velli með fimm villur í undir lok 4. leikhluta.
Pryor var svekktur í leikslok. „Við höfðum mörg tækifæri til að klára leikinn, mér fannst við vel stemmdir fyrir leik, við æfðum vel í vikunni og vorum tilbúnir í orrustu. Þess vegna var mjög svekkjandi að klára þetta ekki. Þetta var kaflaskipt en við gáfum þeim færi á okkur og þess vegna unnu þeir leikinn. Við vorum að klikka á litlum hlutum, bæði í vörn og sókn og þegar á reynir þá eru það þessir litlu hlutir sem skapa heildarmyndina,“ sagði Pryor í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Danero Thomas var maður leiksins með 42 stig og 10 fráköst fyrir Hamar. Halldór Gunnar Jónsson skoraði 20 stig, Bragi Bjarnason 11 og Aron Freyr Eyjólfsson 7 auk þess sem hann tók 10 fráköst.
Ari Gylfason skoraði 27 stig fyrir FSu og Collin Pryor 25 auk þess sem hann tók 11 fráköst. Hlynur Hreinsson skoraði 16 stig, Svavar Stefánsson 11 og Birkir Víðisson 9.