Hamar vann nauman sigur á Hrunamönnum í æsispennandi nágrannaslag í 1. deild karla í körfubolta á Flúðum í kvöld.
Hrunamenn höfðu leikinn í hendi sér í fyrri hálfleik, þar sem þeir léku vel á báðum endum vallarins og leiddu í leikhléi, 51-35. Þeir hleyptu Hvergerðingum hins vegar aftur inn í leikinn með skelfilegri byrjun á seinni hálfleik. Hrunamenn skoruðu 12 stig í 3. leikhluta og Hamar jafnaði 60-60. Í 4. leikhluta var Hamar skrefinu en þegar 56 sekúndur voru eftir af leiknum leiddu Hrunamenn 87-83.
Ævintýraleg lokamínúta
Það gekk á ýmsu á lokamínútunni, Hrunamenn misstu boltann útaf og Björn Ásgeir Ásgeirsson kom Hamri yfir með þremur vítaskotum eftir að brotið hafði verið á honum í þriggja stiga skoti.
Björn var ískaldur á línunni en leikurinn var ekki búinn því Haukur Harðarson var jafn svalur hinu megin, sótti tvö víti og kom Hrunamönnum í 89-88. Hamar fór í síðustu sóknina þegar 6,1 sekúnda var eftir á klukkunni þar sem Elías Bjarki Pálsson var sultuslakur og setti þrist í andlitið á Hrunamönnum á lokasekúndunni og tryggði Hamri 89-91 sigur.
Sarajlija skoraði mest
Ahmad Gilbert var stigahæstur Hrunamanna með 23 stig og 10 fráköst, Samuel Burt skoraði 21 stig og sendi 5 stoðsendingar, Yngvi Freyr Óskarsson skoraði 17 stig og Eyþór Orri Árnason 14.
Hjá Hamri var Mirza Sarajlija stigahæstur með 29 stig, Jose Medina skoraði 27 stig og sendi 6 stoðsendingar og Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 12 stig. Ragnar Nathanaelsson tók 14 fráköst fyrir Hamar.