Hamar tapaði sínum fyrsta leik í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar lærisveinar Lárusar Jónssonar í Þór Akureyri komu í heimsókn í Frystikistuna í Hveragerði.
Úrslit leiksins réðust í framlengingu þar sem Þórsarar skoruðu sigurkörfuna í blálokin.
Leikurinn var jafn allan tímann en Þór leiddi í hálfleik, 46-50. Hvergerðingar voru nálægt því að klára leikinn í venjulegum leiktíma en gestirnir negldu niður þrist þegar fimm sekúndur voru eftir og jöfnuðu 100-100.
Það var mikið skorað í framlengingunni en Þórsarar áttu síðasta orðið og tryggðu sér 116-118 sigur þegar tvær sekúndur voru eftir.
Everage Richardson átti stórleik fyrir Hamar og var stigahæstur með 28 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Gabríel Möller átti sömuleiðis frábæran leik og skoraði 25 stig og sendi 7 stoðsendingar. Arnór Sveinsson skoraði 19 stig, Marko Milekic 15 auk þess að taka 13 fráköst og Florijan Jovanov skoraði 12 stig.
Þór Akureyri hirti því toppsætið af Hamri en bæði lið hafa 8 stig, eins og Vestri.