Ragnar Nathanaelsson, miðherji Hamars, hefur glímt við meiðsli frá því í sumar en hann segir nú mögulegt að hann nái fyrsta deildarleiknum í vetur.
Ragnar hefur glímt við hnémeiðsli og í viðtali á Karfan.is í dag segist hann hafa hætt að væla og gert eitthvað í sínum málum.
,,Svona fyrstu dagana sat ég bara yfir sjónvarpinu með snakk í annarri og gos í hinni að deyja úr sjálfsvorkunn, svo ákvað ég bara að hætta þessu væli og sjálfsvorkunn og gera eitthvað í mínum málum.
Þegar ég var að verða brjálaður á hreyfingaleysi fór ég að vinna á efri hluta líkamans meira svo þegar ég fór til þessa snilldar sjúkraþjálfara þá sá hann að þetta var ekki jafn alvarlegt og við var búist svo ég fór bara í prógramm með honum og var að gera styrktaræfingar alla daga og stundum fór ég tvisvar sinnum á dag í ræktina til að ná fullum styrk aftur,“ sagði Ragnar í samtali við Karfan.is og segir loku ekki fyrir það skotið að hann nái fyrsta mótsleik í 1. deildinni en Hamar mætir KFÍ í fyrstu umferð þann 16. október á Ísafirði.
,,Ef heppnin er með mér þá næ ég hugsanlega fyrsta leik. Ég ætla samt ekki að drífa mig strax á völlinn og meiða mig aftur svo ég ætla að taka minn tíma til að má mér. Þessi leikur við KFÍ um daginn var próf til að sjá hvar ég stóð og kom ég sjálfum mér á óvart hversu langt ég er kominn. Ég miða við að eftir svona 2-3 vikur verði ég orðinn 100% og hættulegri en ég var.“