Körfuboltamaðurinn Ragnar Nathanaelson frá Hveragerði hefur skrifað undir samning við spænska B-deildar félagið Caceres Patrimonio de la Humanidad.
Félagið spilar í LEB Gold deildinni á Spáni en Ragnar yfirgefur þar með Þór Þorlákshöfn og spilar ekki í Dominos deildinni á komandi tímabili.
Ragnar er 25 ára miðherji sem á að baki landsleiki og er einmitt í landsliðshópnum sem mætir Sviss, Belgíu og Kýpur í undankeppni Eurobasket sem fer af stað í næstu viku.
Ragnar var með 13 stig og 11,9 fráköst að meðaltali í 26 leikjum með Þór Þorlákshöfn á síðasta tímabili og var valinn í lið ársins.
Hann reynir því nú fyrir sér í atvinnumennskunni en hann var á samning hjá Sundsvall Dragons árið 2013 auk þess sem hann reyndi fyrir sér hjá NBA liði Dallas Mavericks fyrr í sumar.