Ragnar Ingi Axelsson, leikmaður Hamars í Hveragerði, var valinn blakmaður ársins 2021 af Blaksambandi Íslands. Vegna sóttvarna voru verðlaunin afhent í höfuðstöðvum ÍSÍ fyrir jól.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ragnar Ingi hlýtur þessa nafnbót. Hann hóf sinn blakferil, líkt og margir aðrir, í Neskaupstað en árið 2019 gekk hann til liðs við Hamar. Hann spilaði lykilhlutverk í liðinu sem vann alla þrjá stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu en Hamar varð deildar-, Íslands- og bikarmeistari síðastliðið vor. Ragnar var valinn í lið ársins að keppnistímabilinu loknu.
Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili og var á dögunum valinn í úrvalslið úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins. Hamar tapaði ekki leik á árinu 2021 og eru Ragnar og félagar ósigraðir í 32 keppnisleikjum í röð.
Ragnar Ingi er leikmaður A landsliðsins og á að baki 15 landsleiki en hann hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.