Ragnar Ingi íþróttamaður Hamars árið 2021

Ragnar Ingi Axelsson. Ljósmynd/Hamar

Ragnar Ingi Axelsson var á dögunum útnefndur íþróttamaður Hamars árið 2021. Hann er lykilmaður í liði deildar-, bikar- og Íslandsmeistara Hamars.

Ragnar hóf sinn blakferil, líkt og margir aðrir, í Neskaupstað. Í fyrra gekk Ragnar til liðs við nýliða Hamars í úrvalsdeild karla og spilaði lykilhlutverk í liðinu en Hamar vann alla þrjá stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu. Ragnar var valinn í lið ársins í uppgjöri úrvalsdeildar að keppnistímabilinu loknu. Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili. Ragnar Ingi er leikmaður A-landsliðsins og á að baki 15 leiki og hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Auk Ragnars voru íþróttamenn hverrar deildar verðlaunaðir en það voru Úlfur Þórhallsson, íþróttamaður badmintondeildar Hamars, Brynja Valgeirsdóttir, íþróttamaður knattspyrnudeildar Hamars og Helga María Janusdóttir, íþróttamaður körfuknattleiksdeildar Hamars.

Brynja, Úlfur og Ragnar Ingi. Ljósmynd/Hamar
Fyrri greinFerðaþjónustan kemur saman að nýju
Næsta greinFrábær byrjun á úrslitakeppninni