Selfoss vann góðan sigur á Val þegar þeir hófu keppni á nýjan leik í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Liðin mættust að Hlíðarenda þar sem Selfoss sigraði 24-30.
Fyrir utan góðan sigur verður leiksins minnst fyrir endurkomu Ragnars Jóhannssonar sem lék sinn fyrsta leik fyrir Selfoss í tíu ár. Ragnar stimplaði sig vel inn á upphafsmínútunum og lauk leik sem markahæsti leikmaður Selfoss.
Valur hafði frumkvæðið á upphafsmínútunum en Selfoss jafnaði 3-3 þegar sjö mínútur voru liðnar og tóku forystuna í kjölfarið. Selfoss náði mest fimm marka forskoti um miðjan fyrri hálfleik en Valur minnkaði muninn þegar nálgaðist leikhlé og staðan var 12-15 í hálfleik.
Selfoss hafði góð tök á leiknum í seinni hálfleik en þegar tíu mínútur voru eftir voru Valsmenn búnir að minnka muninn niður í tvö mörk, 20-22. Þá gáfu Selfyssingar aftur í og vængstýfðu Valsmenn á lokakaflanum.
Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 5, Nökkvi Dan Elliðason 4, Sveinn Aron Sveinsson 4/2, Tryggvi Þórisson 3, Hergeir Grímsson 3/1, Atli Ævar Ingólfsson 2 og Einar Sverrisson 1.
Vilius Rasimas var í feiknaformi í marki Selfoss og varði 18 skot.