Ragnar með 15 mörk í tapleik

Ragnar Jóhannsson skoraði 15 mörk þegar Selfoss tapaði fyrir FH á heimavelli, 32-38, í N1 deild karla í handbolta í dag.

Leikurinn var jafn framan af en þegar um 20 mínútur voru liðnar skriðu FH-ingar framúr og fóru með fjögurra marka forskot inn í leikhléið, 16-20.

Seinni hálfleikur varð aldrei verulega spennandi. FH-ingar höfðu undirtökin en þegar tæpar 10 mínútur voru eftir af leiknum náði Selfoss að minnka muninn í þrjú mörk, 30-33. FH-ingar settu þá í gírinn og unnu að lokum sex marka sigur.

Ragnar Jóhannsson var langatkvæðamestur Selfyssinga með 15/6 mörk. Atli Hjörvar Einarsson átti mjög góðan leik á línunni og skoraði 8 mörk. Guðjón Drengsson og Atli Kristinsson voru með 3 mörk hvor, Hörður Bjarnarson 2 og Einar Héðinsson 1.

Birkir Bragason varði 10 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 8.

Fyrri greinGæsluvarðhalds óskað
Næsta greinEldur í bíl