Ragnar og Guðmunda íþróttamenn ársins

Guðmunda Brynja Óladóttir, knattspyrnukona og Ragnar Jóhannsson, handboltamaður voru valin íþróttakona og íþróttakarl Umf. Selfoss árið 2010.

Aðalfundur ungmennafélagsins fór fram í félagsheimilinu Tíbrá í síðustu viku. Mjög góð mæting var á fundinn, en 54 fulltrúar af 57 sem höfðu rétt til setu á fundinum mættu. Að vanda var lögð fram vönduð ársskýrsla þar sem fram kom að starfið hefur aldrei verið öflugra.

Á fundinum var m.a. lýst yfir ánægju með uppbyggingu íþróttamannvirkja á Selfossi og bæjaryfirvöld jafnframt hvött til að halda því starfi áfram. Einnig voru samþykktar ályktanir um bann við hvers kyns áfengisauglýsingum og hvatt til að standa vörð um við tóbaksnotkun hvers konar.

Helgi S. Haraldsson hlaut Björns Blöndals bikarinn fyrir framúrskarandi störf í þágu félagsins og júdódeild fékk UMFÍ bikarinn sem deild ársins.

Grímur Hergeirsson var endurkjörinn formaður félagsins. Aðrir í stjórn eru Hróðný Hanna Hauksdóttir, gjaldkeri, Sandra D. Gunnarsdóttir, ritari og Sveinn Jónsson og Jóhannes Óli Kjartansson meðstjórnendur.

Gestir fundarins voru heiðursfélagarnir Hafsteinn Þorvaldsson og Tómas Jónsson, Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar og Bragi Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi Árborgar.

Fyrri greinStyrr um starfsemi Matvælastofnunar
Næsta greinSameinast um velferðarþjónustu