Ragnar steig upp þegar mest á reyndi

Ragnar Jóhannsson skoraði sex mörk í kvöld. Ljósmynd/Sigurður Ástgeirsson

Selfyssingar eru komnir upp í 3. sæti Olísdeildar karla í handbolta eftir góðan sigur á Stjörnunni í spennuleik á Selfossi í kvöld.

Selfoss náði þriggja marka forskoti í upphafi leiks og þeir létu forystuna aldrei af hendi í fyrri hálfleik. Staðan var 16-14 í leikhléi.

Stjarnan skoraði þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og komst yfir en Selfyssingar voru fljótir að komast aftur í þriggja marka forystu. Lokakafli leiksins var æsispennandi þar sem Stjarnan jafnaði 27-27. Selfoss var með boltann þegar hálf mínúta var eftir í stöðunni 28-28 og níu sekúndum fyrir leikslok negldi Ragnar Jóhannsson inn sigurmarkinu, 29-28.

Ragnar var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, þar af skoraði hann sex mörk í seinni hálfleik. Hergeir Grímsson skoraði 6/2 mörk og var firnasterkur í vörninni, Atli Ævar Ingólfsson, Magnús Öder Einarsson og Hannes Höskuldsson skoruðu allir 4 mörk, Alexander Már Egan 3 og Nökkvi Dan Elliðason 1.

Vilius Rasimas var sterkur í markinu hjá Selfyssingum en hann varði 16 skot í leiknum.

Selfyssingar urðu fyrir blóðtöku í upphitun þegar Guðmundur Hólmar Helgason meiddist og er óttast að meiðsli hans séu alvarleg. Guðmundur Hólmar hefur verið algjör lykilmaður hjá Selfyssingum í vetur.

Fyrri greinKatrín skoraði tvisvar í sigri á KR
Næsta greinNýja torgið nefnist Hagatorg