Ragnheiður Björk íþróttamaður ársins

Íþróttamaður ársins 2015 hjá Ungmennafélagi Hrunmanna var krýndur á aðalfundi félagsins þann 17. apríl síðastliðinn, en það er körfuknattleikskonan Ragnheiður Björk Einarsdóttir.

Ragnheiður lék með Hrunamönnum/Ármanni í 10. flokki en liðið endaði í 3.-4. sæti Íslandsmótsins og einnig með stúlknaflokki félaganna sem endaði í 4. sæti Íslandsmótsins.

Þá lék hún með liði FSu/Hrunamanna í meistaraflokki en liðið endaði í 7. sæti 1. deildar á liðinni leiktíð.

Ragnheiður lék með U16 ára landsliði Íslands sem sigraði örugglega í C-deild Evrópudeildarinnar á Andorra og hafnaði í 5. sæti á Norðurlandamótinu í Solna í Svíþjóð.

Í greinargerð með valinu á Ragnheiði segir að hún sé „íþróttamaður sem hefur náð langt í sinni grein og hefur burði til að ná enn lengra. Hún stundar íþrótt sína vel og er góð fyrirmynd yngri iðkenda. Ragnheiður er góður félagi, áhugasöm og tekur leiðsögn vel.“

Fyrri greinJapanskar blómaskreytingar í Listasafninu
Næsta greinLandgræðslan fékk umhverfisverðlaun Ölfuss