Fimleikakonurnar Rakel Nathalie Kristinsdóttir og Helga Hjartardóttir voru í liði Ollerup sem tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn í hópfimleikum mixliða í morgun.
Báðar hafa þær keppt fyrir fimleikadeild Umf. Selfoss og koma úr fimleikaakademíu félagsins. Rakel er frá Árbæjarhjáleigu í Holtum en Helga frá Hveragerði. Þær stunda nám við Ollerup lýðháskólann í Danmörku sem teflir fram sterku liði núverandi og fyrrverandi nemenda. Þær hafa stundað nám við skólann síðan í haust og komust strax í lið skólans sem þegar hafði tryggt sér þátttökurétt á NM.
Í flokki mixliða keppa blönduð lið sex karla og sex kvenna. Lið Stjörnunnar/Ármanns keppti fyrir Íslands hönd í þessum flokki og varð í 3. sæti.
Norðurlandameistaramótið fer fram í Larvik í Noregi. Umf. Selfoss á einn fulltrúa til viðbótar á mótinu en Olga Bjarnadóttir dæmir þar fyrir hönd Íslands.