Rallökumenn fara víða dagana 25.-27. ágúst næstkomandi en þá verður ekin fjórða umferð í Íslandsmeistarmótinu í rallý, Rallý Reykjavík.
Að venju er það Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur sem stendur fyrir þessari keppni. Er um að ræða lengstu og erfiðustu umferð Íslandsmótsins en eknir verða tæplega 1.000 km á þessum þremur dögum. Einbeiting og úthald skiptir gríðarlega miklu máli fyrir áhafnirnar en rúmlega 20 áhafnir eru skráðar til leiks. Athygli vekur að einungis ein erlend áhöfn er skráð til leiks en af íslenskum áhöfnum má sjá að helstu rallökumenn munu berjast um verðlaunasætin.
Keppnin hefst fimmtudaginn 25. ágúst klukkan 16:45 með sérleið við Hvaleyrarvatn. Hefur sú leið stundum verið áhöfnum erfið en skemmst er að minnast hrakfara fyrrum Íslandsmeistara Hennings Ólafssonar og Árna Gunnlaugssonar en þeir veltu bifreið sinni á þessari fyrstu leið keppninnar síðast liðið sumar.
Af öðrum sérleiðum keppninnar má nefna að ekið verður á föstudag um Bjallahraun, í nágrenni Heklu og á Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. Á laugardag liggur leiðin upp í Borgarfjörð en ekið verður um Kaldadal áður en haldið er að Hengli. Dagurinn endar hjá Djúpavatni í nágrenni Hafnarfjarðar en úrslit ráðast oft á þeirri erfiðu leið.
Keppninni líkur laugardaginn 27. ágúst klukkan 15:00 við Perluna með tilkynningu úrslita.
Þorkell Símonarson og Þórarinn K. Þórsson eru skráðir til leiks í jeppaflokki en þeir aka á Toyota Hilux. Rekur marga í rogastans þegar rallökumaðurinn Keli rifjar upp að nú í haust eru 30 ár liðin síðan hann lenti í alvarlegu bílslysi. Keli sem sofnað hafði undir stýri var auk þess ekki í bílbelti og var honum ekki hugað líf þar sem hann slasaðist mjög alvarlega. Var Keli fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur en eftir legu á Borgarspítalanum tók við endurhæfing á Grensás. Starfsfólk þar var að sögn Kela ákaflega gott, hvatning var mikil, m.a. með því að ýta á fólk að gera betur og meira í dag en gert var í gær. Einnig er Kela ofarlega í huga hve fordómalaust starfsfólkið var gagnvart einstaklingum eins og honum en bílslysið varð að hans sögn fyrir hans eigið dómgreindarleysi.
Til að minnast þessa atburðar aka þeir félagar til styrktar Grensás undir slagorðinu „Rallað fyrir Grensás”. Má fylgjast með þeim á Facebook.
Vegna keppninnar verða veglokanir víða á Suðurlandi. Á föstudag verður vegur austan Heklu frá Rauðuskál að F210 lokaður kl. 8:00-11:30 og 14:00-15:15. Landmannaleið um Dómadal verður lokuð á föstudag kl. 9:30-10:45 og 14:00-15:15.
Á laugardag verða síðustu 5 km Nesjavallaleiðar að vegi 360 lokaðir kl. 6:30-8:00 og 11:00-12:30 og Kaldidalur verður lokaður kl. 7:30-11:00.